24.1.2007 | 04:12
"Lima sightseeing", thvottur, riffilskot og enn af kakkalokkum
Berglind og ég tókum því rólega síðasta laugardagskvöld og fórum snemma í bólið og sváfum fram eftir. Vorum bara nokkuð þreytt eftir síðustu viku. Við vorum búin að ákveða að sunnudagurinn færi í að skoða Lima sem reyndar verður nú að segjast að er ekkert rosalega spennandi borg. Lima er alla vega ekki ástæðan fyrir að fara til Perú. En jæja við lögðum af stað á hádegi og byrjuðum daginn á að fara upp á San Cristóbal sem er ein af hæðunum/fjöllunum í Lima og góður útsýnisstaður. Það var vel heiðskírt og gott útsýni og reyndar var þetta heitasti dagur það sem af er sumrinu hér í Perú. Þegar maður er kominn þangað upp sést hversu gríðarstór Lima er en borgin er líklegast 40 km enda í enda og þar búa 8 milljónir manns. Berglind skrifaði á bloggið sitt góða lýsingu á Lima sem er fengin úr Lonely Planet. Eftir San Cristóbal fórum við síðan í miðbæ Lima og fengum okkur hádegismat en ég er farinn að storka örlögunum sífellt meir en sloppið við niður- og uppgang hingað til. Er reyndar dálítið smeykur eftir hádegismat dagsins í dag sem var steiktur kjúklingur á einhverri lókal búllu rétt hjá spítalanum :o/ Við röltum síðan um miðbæinn, tókum myndir, spjölluðum við fólk og fórum inn í dómkirkjuna. Ég var reyndar svo heppinn að þegar við vorum að ganga meðfram húsum í kringum aðaltorgið tók ein dúfan sig til og skeit og hitti beint á hvirfilinn á mér, lögreglumönnunum og Berglindi til mikillar skemmtunar. Ein löggan gaf mér hins vega pappír til að þurrka á mér hárið og svo setti ég örugglega hálfan brúsa af spritti í hausinn. Þegar ég kom svo heim um kvöldið las ég að histoplasmosis sveppurinn er gjarnan í dúfnaskít þ.a ég fæ kannski sveppalungnabólgu eftir 10-14 daga :o/
Því miður er ekki þvottavél í okkar ágætu íbúð þ.a. við höfum verið að leita að þvottahúsi þar sem hægt er að þvo sjálfur en ekkert fundið. Við fundum þó loks þvottahús sem við héldum að væri autoservicio. Fórum þangað í gær með handklæði, spítalaföt, sokka og nærbuxur. Ég hélt að við myndum þvo sjálf þannig að ég var alls ekki undir það búinn að e-r ókunnug kona væri að handfjatla nærbuxurnar mínar. Það er bara fyrir mig eða mömmu. Ekki það að nærbuxurnar mínar séu e-ð ógeðslegar, Calvin og H&M, eða lykti sérlega illa þá verð ég að viðurkenna að nærbuxur og sokkar sem ég hef notaði í tæplega 30° hita og 80% raka ilma ekki eins og vor í svissnesku ölpunum. Ég tók þó á honum stóra mínum og lét naríurnar og restina af þvottinum af hendi. Við borgum 80 kr. fyrir hvert kíló af þvotti. Þvegið, þurrkað og brotið saman. Við fórum svo áðan og sóttum þvottinn. Ekkert týnt en ég hef konurnar í þvottahúsinu sterklega grunaðar um að nota þá allra hröðustu stillingu sem til er á þvottavélum og vatnið örugglega ekki heitara en 20° C. Hvíti þvotturinn var alla vega langt frá því að vera skjannahvítur. Við lifum þetta þó af!
Þegar ég fór í gær með þvottinn fór ég með hann í annarri ferðatöskunni sem Pabbi og Mamma lánuðu mér. Ég fór þá e-ð að skoða í litlu hólfunum á töskunni og haldið ekki að ég hafi fundið .44 kalíbera riffilskot í einum vasanum. Búinn að ferðast með þetta frá Íslandi, gegnum JFK og til Perú. Ég veit ekki hvort Pabbi hafi frekar viljað að ég færi frekar til Guantanamo til að klæðast appelsínugulum búningi, læra arabísku og um Jihad en ég þakka Guði fyrir að hafa ekki lent í vandræðum í tollinum á JFK og þetta skot verður skilið eftir hér í Perú.
Enn af kakkalökkum. Verð bara að segja að ég dáist að þessum dýrum. Skildum eitt matarboxið eftir hálfopið í 30 mín og þá var einn lítill kakkalakki kominn þar að gæða sér á kexinu hennar Berglindar. Ég ákvað nú að segja Berglindi frá þessu og kexið fór í ruslið :o)
Athugasemdir
Hæ hó- takk fyrir að benda mér á bloggið þitt.
Já og velkomin í "láttu dúfu skíta á hausinn á þér" klúbbinn! Þú munt hljóta ævilanga hamingju og lukku fyrir vikið Ég lenti einmitt í þessu á Lækjatorgi forðum daga þegar allt lokaði kl 3 og var bara með nokkur þúsund manns í kringum mig - en við erum "The Chosen Ones" Til hamingju með afmælið um daginn. Fylgist áfram með :) kv. Hildur Sím
Hildur Símonardótti (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 17:19
Dúfur eru hrikalega third world...! Gaman að sjá að ykkur leiðist ekki á frídeginum ykkar. Til lukku með afmælið þitt um daginn Pétur, hugsaði daglangt til þín.
erik (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 11:03
thetta a ad vera happa, lenti einmitt i thessu i Danmorku f nokkrum arum...
kv. Sigrun H
Sigrun (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 15:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.